Innlent

Heimild veitt til að semja um lóð undir samgöngumiðstöð

Líkan af samgöngumiðstöðinni.
Líkan af samgöngumiðstöðinni.

Meirirhluti fjárlaganefndar leggur til í framhaldsnefndaráliti vegna fjárlaga næsta árs að ríkið fái heimilt til að ganga til samninga við Reykjavíkurborg um lóð undir samgöngumiðstöð sem fyrirhugað er að reisa í Vatnsmýrinni.

Eins og fram hefur komið í fréttum Stöðvar 2 stendur til að reisa samgöngumiðstöðina norðan við Loftleiðahótelið og eiga framkvæmdir að hefjast að óbreyttu í lok apríl næstkomandi. Stefnt er að því að þeim verði lokið eftir um 18 mánuði ef allt gengur að óskum. Tillögur að útliti miðstöðvarinnar liggja fyrir og er gert ráð fyrir að hún sinni rútum, bílaleigum og strætisvögnum en ekki eingöngu flugstarfsemi.

Að sögn Róberts Marshall, aðstoðarmanns samgönguráðherra, er gert ráð fyrir að ríkið láti borgina fá lóð í stað þeirrar sem fara á undir samgöngumiðstöðina en samningar þar að lútandi séu ekki frágengnir. Þess sé beðið að hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Vatnsmýrarinnar ljúki en henni eigi að ljúka nú um áramót. Menn vilji horfa til skipulags svæðisins í heild og taka mið af því ef gert sé ráð fyrir að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni og hlutverk samgöngumiðstöðvarinnar breytist þannig.

Með tillögu meirihluta fjárlaganefndar er því verið að veita samgönguráðherra heimild til þess að ganga til samninga við borgina í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×