Innlent

Vilja allar raflínur í jörð

Heyra þessar raflínur brátt sögunni til.
Heyra þessar raflínur brátt sögunni til. MYND/GVA

Fulltrúar úr öllum flokkum á Alþingi hafa lagt fram þingsályktunartillögu þar sem lagt er til að ríkisstjórninni verði falið að skipa nefnd sem á að móta stefnu um hvernig leggja megi á næstu árum og áratugum raflínur í jörð sem nú eru ofan jarðar.

Bent er á að í greinargerð með tillögunni að orkuframleiðsla hafi aukist mjög hér á landi á undanförnum árum og að sú krafa hafi orðið háværari að jarðstrengir séu nýttir í stað loftlína. Þannig hafi viðhorf breyst og raflínur sem eitt sinn þóttu merki um framfarir og velsæld þyki nú lýta umhverfið og spilla ósnortnu landslagi.

Bent er á að nær allar fjarskiptalagnir á Íslandi séu komnar í jörð og svipuð þróun verði augljóslega í dreifikerfi raforku. Til þess að styðja þá þróun og flýta henni þurfi að liggja fyrir pólitísk stefnumörkun um að stefnt skuli að lagningu allra raflína í jörð.

Jarðstrengir hafi einnig þann kost umfram háspennulínur að vera óháðir veðurþáttum, svo sem ísingu, saltmengun og vindi sem valdið geti rafmagnsleysi. Því sé lagning jarðstrengja mikilvægt hagsmunamál dreifbýlisins. Þó er bent á að viðgerðir jarðstrengja séu bæði dýrari og tímafrekari en á loftlínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×