Innlent

Minjavernd taki við gamla ÁTVR-húsinu á Seyðisfirði

Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR.
Ívar J. Arndal, forstjóri ÁTVR.

ÁTVR harmar ef innréttingar í fyrrverandi vínbúð fyrirtækisins á Seyðisfirði hafi skemmst í gær en þá var hafist handa við að rífa þær niður í óleyfi.

Það var hópur Seyðfirðinga sem stöðvaði niðurrif innréttingarinnar í húsinu að Hafnargötu 11 á Seyðisfirði en um er að ræða eina elstu búðarinnréttingu landsins sem nýtur verndar samkvæmt húsafriðunarlögum. Verktakar höfðu fengið þau fyrirmæli frá ÁTVR að fjarlægja innréttinguna og flytja suður en lögregla stöðvaði á endanum niðurrifið.

Í tilkynningu frá ÁTVR segir að viðræður hafi staðið yfir í langan tíma milli fjármálaráðuneytis og Seyðisfjarðarbæjar um að bærinn yfirtaki húsið og innréttingarnar. Viðræðurnar hafa ekki skilað árangri og engin lausn var í sjónmáli. Því hafi verið ákveðið að koma innréttingunum í örugga geymslu en ÁTVR hafi talið óverjandi að láta þær standa í lélegu og yfirgefnu húsi árum saman.

Viðræður eru þegar hafnar milli fjármálaráðuneytisins, Minjaverndar og Seyðisfjarðarkaupstaðar um að Minjavernd taki við húsinu og vonast aðilar eftir því að farsæl lausn finnist á allra næstu dögum. Á meðan verður ekkert aðhafst frekar í málinu. Segist ÁTVR munu sjá til þess í samráði við heimamenn að innréttingunum sé fullur sómi sýndur og koma af myndarskap að endurgerð þeirra og uppsetningu þegar þar að kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×