Innlent

Opnun Mænuskaðastofnunar í dag

Vigdís Finnbogadóttir er verndari Mænuskaðastofnunar Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir er verndari Mænuskaðastofnunar Íslands. MYND/Valgarður Gíslason

Mænuskaðastofnun íslands tekur formlega til starfa í dag. Tilgangur stofnunarinnar er meðal annars að afla fjár til að styðja brautryðjendur í leit að lækningu á mænuskaða og kosta tilraunaaðgerðir á mænusköðuðu fólki. Þannig verði stuðlað að því að lækning á mænuskaða verði að veruleika.

Berglind Skúladóttir Sigurz framkvæmdastjóri stofnunarinnar segir framtíðarhúsnæði enn ekki fundið fyrir stofnunina enda sé markmiðið að umgjörð verði eins lítil og mögulegt er þannig að sem mest fjármagn fari í styrki til rannsókna. Til að byrja með munu einn til tveir starfsmenn starfa á stofnuninni.

Í tilkynningu segir að lækningum á mænuskaða hafi ekki tekið miklum framförum síðastliðna hálfa öld. Á sama tíma hafi lækningum á ýmsum öðrum sjúkdómum fleygt fram.

Gagnabanki um mænuskaða hefur verið starfræktur í tvö ár og er Mænuskaðastofnunin beint framhald af þeirri starfsemi. Bankinn naut stuðnings heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og var hvattur af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO.

Það er Auður Guðjónsdóttir hjúkrunarfræðingur og dóttir hennar Hrafnhildur Thoroddsen sem eru helstu hvatamenn stofnunarinnar en heilbrigðisráðuneytið, Seltjarnarnesbær, Exista og FL Group koma einnig að stofnun Mænuskaðastofnunarinnar. Heilbrigðisráðuneytið styrkir einnig rekstur stofnunarinnar til að byrja með.

Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari stofnunarinnar, en í stjórn Mænuskaðastofnunar Íslands sitja Hanna Katrín Friðriksson aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, Auður Guðjónsdóttir sem er stjórnarformaður, Jónmundur Guðmarsson bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar, Júlíus Þorfinnsson FL Group og Sigurður Valtýsson forstjóri Exista.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×