Innlent

Flugvélum fjölgar en flugumferðarstjórum ekki

Hundrað þúsundasta flugvélin á árinu fer um íslenska úthafsflugstjórnarsvæðið í dag og hafa frá upphafi aldrei verið fleiri á einu ári.

Eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra má ætla að um105.000 flugvélar muni fara um flugstjórnarsvæðið á þessu ári sem er um 43 prósenta aukning umferðar á aðeins tíu árum. Flugumferðarstjórar benda á að á sama tíma og flugvélunum fjölgi gríðarlega hafi fjöldi flugumferðarstjóra við störf hins vegar haldist nánast óbreyttur með tilheyrandi álagi á þá og aðra starfsmenn í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Vekja flugumferðarstjórar jafnframt athygli á því að áfallalaus aukning flugumferðar sé ekki sjálfgefin. Vísað er í skýrslu á vegum vegum samgönguráðherra frá árinu 1997 þar sem fram hafi komið að á tímabilinu 1987-1997 hafi flugumferð um íslenska flugstjórnarsvæðið aukist um 35 prósent. Fjöldi flugumferðarstjóra stóð hins vegar í stað en aukinni flugumferð var mætt með aukinni vinnu flugumferðarstjóra, betri tæknibúnaði og hagræðingu í vinnuskipulagi.

„Þessar kröfur hafa leitt til þess að flugumferðarstjórar þurfa að hætta störfum fyrr en aðrir launamenn á vinnumarkaðinum. Þá felst í starfinu að vinna verður á vöktum og vinnuálag er oft á tíðum meira en almennt gerist," segir í tilkynningu Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Segir enn fremur að fáir verði varir við árangur erfiðis flugumferðarstjóra í starfi þeirra "á bak við tjöldin".

Flugumferðarstjórar benda á að um alþjóðlegan vanda sé að ræða. Alþjóðasamtök flugumferðarstjóra hafi þannig verulegar áhyggjur af því að flugumferðarstjórum við störf víða um heim fjölgi ekki í samræmi við aukin umsvif í fluginu. Þetta auki álag á starfsmenn við flugumferðarstjórn með tilheyrandi hættu á þreytu og streitu og geti haft áhrif á flugöryggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×