Innlent

Í farbanni fram yfir jól vegna gruns um nauðgun

Hæstiréttur staðfesti í dag farbannsúrskurð yfir Pólverja sem grunaður er um nauðgun í Vestmannaeyjum í lok september. Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði manninn í farbann til 30. janúar en Hæstiéttur stytti farbannsúrskurðinn til 18. janúar.

Í greinargerð lögreglu með farbannskröfunni kemur fram að maðurinn hafi játað að hafa haft mök við konuna sem hann er sakaður um að hafa nauðgað. Hann segir hins vegar að mökin hafi átt sér stað með samþykki hennar.

Þar kemur einnig fram að beðið sé niðurstöðu rannsókna á fatnaði konunnar en hann er til rannsóknar í Svíþjóð. Maðurinn mótmælti farbannsúrskurðinum og kvaðst ekki eiga að gjalda þess að rannsóknir á lífsýnum tækju langan tíma. Þá væru það réttindi hans að vera hjá fjölskyldu sinni um hátíðarnar. Hann væri auk þess slasaður og gæti þess vegna ekki stundað vinnu. Enn fremur hefði hann lagt fram tryggingu sem tryggja mætti að hann kæmi til landsins aftur ef þörf kræfi. Á þetta féllst hvorki héraðsdómur né Hæsiréttur og var vísað til þess að brottför mannsins gæti torveldað rannsókn málsins.

Einn dómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, skilaði sératkvæði og taldi ekki nauðsynlegt að bíða eftir niðurstöðu úr greiningu lífsýna til þess að taka ákvörðun um saksókn í málinu. Maðurinn hefði viðurkennt að hafa haft mök við konuna. Taldi hann nægilegt að maðurinn sætti farbanni til vikuloka á meðan yfirvöld tækju ákvörðun um hvort höfða ættti mál á hendur honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×