Innlent

Hæstiréttur staðfestir framsal Litháa til heimalands síns

MYND/GVA

Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð dómsmálaráðherra um að 18 ára litáískur karlmaður skuli framseldur til heimalands síns þar sem hann er grunaður um þjófnaðarbrot.

Yfirvöld í Litháen fóru fram á framsal mannsins í byrjun september vegna brotanna. Dómsmálaráðherra ákvað að fallast á framsalsbeiðnina í byrjun október og var sú ákvörðun staðfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

Hins vegar felldi Hæstiréttur ákvörðun dómsmálaráðherra úr gildi í nóvember vegna þess að hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu voru fjögur mál þar sem maðurinn var grunaður um þjófnað, eignaspjöll, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot hér á landi.

Manninum hefur verið gerð refsing vegna þeirra og 13. nóvember tók dómsmálaráðherra á ný ákvörðun um að framselja manninn til Litháen. Þá ákvörðun staðfesti héraðsdómur og nú Hæstiréttur.

Tveir dómarar, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jón Steinar Gunnlaugsson, skiluðu sératkvæði og vildu hafna framsali mannsins. Vísuðu þeir til þess að ætluð háttsemi mannsins í Litháen, eins og henni er lýst í gögnum málsins, yrði ekki talin geta varðað eins árs fangelsi að íslenskum lögum og gæti því ekki orðið grundvöllur framsals.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×