Fótbolti

Healy fær verðlaun frá UEFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
David Healy fagnar marki sínu gegn Dönum á Windsor Park í síðasta mánuði.
David Healy fagnar marki sínu gegn Dönum á Windsor Park í síðasta mánuði. Nordic Photos / Getty Images

Michel Platini hefur tekið vel í þá hugmynd að verðlauna David Healy sérstaklega fyrir árangur hans með landsliði Norður-Írlands í undankeppni EM 2008.

Healy setti met í sögu undankeppni EM er hann skoraði þrettán mörk fyrir Norður-Íra. Það dugði liðinu þó ekki til að komast í úrslitakeppnina sem fer fram í Austurríki og Sviss á næsta ári.

Nigel Worthington landsliðsþjálfari Norður-Íra sagði að Healy ætti skilið að fá verðlaun fyrir afrekið og að sögn Raymond Kennedy, formanns norður-írska knattspyrnusambandsins, tók Michel Platini, foresti UEFA, vel í hugmyndana.

„Honum fannst þetta mikið afrek fyrir svo litla þjóð,“ sagði Kennedy. „Þegar maður leiðir hugann að því að Healy skoraði jafn mörg mörk í þessari undankeppni og Colin Clarke, næstmarkahæsti landsliðsmaður Norður-Íra, gerði á öllum sínum ferli rennur upp fyrir manni hversu mikið afrek þetta var.“

Healy skoraði eitt markanna þrettán úr vítaspyrnu á Laugardalsvelli er Norður-Írland tapaði fyrir Íslandi, 2-1. Íslendingar unnu Norður-Íra einnig í Belfast, 3-0.

Hefðu Norður-Íra unnið báða þessa leiki og úrslit annarra leikja í riðlinum haldist óbreytt hefðu Norður-Írar komist í úrslitakeppni EM á kostnað Svía. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×