Innlent

Grunaður um að hafa ekið ölvaður með 10.000 lítra af olíu innanborðs

Andri Ólafsson skrifar

Olíuflutningabifreið með tíuþúsund lítra af olíu innanborðs valt á hliðina á vinnusvæði í Arnkötludal á Vestfjörðum á laugardagskvöld. Ökumaður bifreiðarinnar er grunaður um ölvun við akstur.

Engin olía lak úr bifreiðinni en viðbragðsteymi frá Olídreifingu ehf, sem er eigandi bifreiðarinnar var sent á vettvang til að losa farminn.

Olíudreifing ehf. hafði leigt bifreiðina til aðila sem þjónustar verktaka á vinnusvæðinu en þar er verið að leggja veg um Arnkötludal.

Þegar lögregla kom á vettvang vaknaði grunur um að ökumaðurinn sem velti bifreiðinni væri ölvaður. Hann var færður á lögreglustöð þar sem af honum var tekið blóðsýni sem sent verður til rannsóknar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×