Innlent

Skynsamlegra að byggja upp álver á Húsavík en fyrir sunnan

MYND/GVA

Össur Skarðhéðinsson iðnaðarráðherra segir að skynsamlegra sé að byggja upp álver á Húsavík en á suðvesturhorninu. Hins væri mikilvægt að nýta orku landsins til uppbyggingar á hátækniiðnaði. Þetta kom fram í máli ráðherrans í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi umræðu um atvinnuuppbygginu á Austurlandi. Óskaði hann Íslendingum til hamingju með Kárahnjúkavirkjun og álverið í Reyðarfirði og sagði byggðamál standa betur nú en fyrir 10 árum. „Vinnan er móðir hamingjunnar," sagði Guðni og benti á að mikil atvinnuuppbygging hefði orðið á síðustu árum og fleiri stoðum hefði verið skotið undir atvinnulífð.

Sjávarútvegur hefði áður verið eina gjaldeyrisstoðin en nú væru þær fjórar: sjávarútvegur, ferðaþjónusta, iðnaður og fjármálaþjónusta. Það hefði verið rétt ákvörðun að ráðast í álverið í Reyðarfirði og Kárahnjúka sem myndu mala gull í lófa komandi kynslóða. Sagði hann Framsóknarflokkinn hafa verið móðurina eða föðurinn í þessum málum og spurði Össur Skarphéðinsson hvort byggja ætti upp fleiri atvinnutækifæri á Austurlandi og vinna að samgöngubótum.

Össur Skarphéðinsson benti á að þrír og eftir atvikum fjórir flokkar hefðu stutt framkvæmdirnar en tími væri kominn til að deilum um uppbygginguna linnti. Stóriðjuuppbyggingin hefði leitt til þess að þjóðin hefði tekið umhverfismál miklu nær hjarta sínu sem væri gott.

Þá sagði Össur að Kárahnjúkavirkjkun væri tæknilegt stórvirki og hefði skipt sköpun fyrir þróun Austfjarða. Útlit væri fyrir að íbúum á Austurlandi fjölgaði um allt að 2000 nú þegar framkvæmdum væri að ljúka en framkvæmdirnar hefðu margfeldisáhrif. Þessar framkvæmdir hefðu náð þeim tilgangi varðandi byggðir sem stefnt var að. Þá sagði Össur að hrakspár manna um að enginn Íslendingur myndi vinna í álverinu í Reyðarfirði hefðu ekki ræst því 220 starfsmannanna væru af Austurlandi og 160 kæmu annars staðar frá.

Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri - grænna, sagði að þeir sem nú fögnuðu gangsetningu Kárahnjúkavirkjunar ættu að stilla fagnaðarlátum í hóf. Framkvæmdirnar á Austurlandi hefðu verið eitt allra erfiðasta deilumál þjóðarinnar síðustu ár og klofið hana. Vinstri - grænir óskuðu starfsfólki fyrir austan alls góðs í störfum sínum þrátt fyrir að flokkurinn hefði verið á móti framkvæmdunum. Þá sagði hann að reynslan ætti eftir að sýna hversu mikil viðspyrna framkvæmdirnar yrðu í byggðamálum á Austurlandi. Benti Steingrímur á að Mið-Austurland hefði aðeins notið góðs af uppbyggingunni.

Einar Már Sigurðarson, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði uppbygginguna á Austurlandi fordæmi sem flytja ætti til annarra landshluta og því væri eðlilegt að ráðast í álver á Húsavík. Það væri þjóðhagslegt glapræði að byggja upp stóriðju á suðvesturhorninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×