Fótbolti

UEFA grunar að úrslitum leikja hafi verið hagrætt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Knattspyrnusamband Evrópu hefur afhent alþjóðalögreglunni Interpol 96 síðna skjal þar sem fram koma grunsemdir sambandsins um að úrslitum fimmtán leikja í hinum ýmsu keppnum hafi verið hagrætt undanfarin tvö ár.

Ekki hefur verið staðfest um hvaða lið eða keppnir eru að ræða en samkvæmt heimildum fréttastofu BBC er um að ræða leiki í undankeppni EM 2008, undankeppni Meistaradeildar Evrópu, Evrópukeppni félagsliða og Intertoto-keppninni.

Þá er talið að enginn þessara fimmtán leikja sé eldri en síðan í júlí 2005.

Der Spiegel í Þýskalandi greindi fyrst frá þessu en um helgina koma saman helstu fyrirmenni evrópskrar knattspyrnu í tengslum við fund framkvæmdarráðs UEFA og riðladráttinn í úrslitakeppni EM sem fer fram í Austurríki og Sviss á næsta ári.

Samkvæmt þýska tímaritinu eru félögin sem hér koma við sögu séu í langflestum tilvikum frá löndum í suður- og austurhluta Evrópu. Lönd sem eru nefnd til sögunnar eru Búlgaría, Georgía, Serbía, Króatía og Eystrasaltslöndin.

Erfitt hefur reynst að sanna sekt í slíkum málum en ljóst er að ef einhver félagslið eða landslið verða fundin sek í þessu máli má búast við afar hörðum dómi. Mál af þessu tagi hafa ekki verið jafn umsvifamikil og þetta hingað til.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×