Innlent

Herskáir nýnasistar skjóta rótum hér á landi

Serbneskir meðlimir samtakanna Blood & Honour á söfnunartónleikum í Serbíu.
Serbneskir meðlimir samtakanna Blood & Honour á söfnunartónleikum í Serbíu.

„Kynnið ykkur C 18 því það er komið til Íslands. Gaman verður í vetur," segir á íslensku rasistasíðunni skapari.com þar sem vísað er í einhverjar greinar tengdar samtökunum.

C 18 eða Combat 18 ku vera "vopnaði hluti" bresku nasista samtakanna, Blood & Honour. Samtökin voru stofnuð árið 1990 og eru meðal annars þekkt fyrir ofbeldi í garð innflytjenda. Tölustafurinn 18 er mikið notaður af nasistasamtökum víða um heim en talan vísar til upphafsstafa Adolf Hitlers. A er fyrsti stafurinn í stafrófinu og H er sá áttundi.

Combat 18 eru nokkuð öflug á Norður-Írlandi og stóðu meðal annars fyrir óeirðum í kringum knattspyrnuleik N-Írlands og Englands árið 1995. Meðlimir samtakanna hafa verið handteknir og setið í fangelsi eftir því sem Vísir kemst næst.

Svo virðist sem forsvarsmenn síðunnar skapari.com séu að boða komu samtakanna hingað til lands en enginn virðist gangast við því að bera ábyrgð á því sem þar er skrifað.

Í skjóli nafnleysis básúna forsvarsmenn síðunnar svívirðingar og upphefja hinn hvíta kynstofn. Meðal annars segir á síðunni að pólitísk rétthugsun sé svo sterk hér á landi að almenningur þori ekki lengur að tjá sig. Síðan skapari.com sé liður í að breyta því.

Skapari.com er hýst erlendis og skráð á bandaríska útvarpsmanninn Hal Turner sem er þekktur fyrir öfgakenndar skoðanir sínar.

Vísir hefur áður sagt frá því að lögreglan rannsaki hverjir standi að baki síðunni. Fjölmargar ábendingar hafa borist lögreglu sem kannar hvaða lög hafa þar verið brotin. En meðal annars hafa niðrandi ummæli um nafngreinda íslendinga verið skrifuð á síðuna, þar á meðal um Ólaf Ragnar Grímsson forseta Íslands.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×