Innlent

Þorbjörn Broddason: Styrkur Björgólfs er stórathugaverður

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands.
Þorbjörn Broddason, prófessor við Háskóla Íslands.
„Það er stórathugavert að Björgólfur Guðmundsson skuli styrkja Ríkisútvarpið um hundruð milljónir króna, " segir Þorbjörn Broddason, fjölmiðlafræðingur og prófessor við félagsfræðiskor Háskóla Íslands.

Tilkynnt var í dag að RÚV og Björgólfur hefðu gert samkomulag um að stórefla íslenska dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Samkvæmt samkomulaginu munu þessir aðilar tryggja framleiðendum sjónvarpsmynda fjármuni til að hefja framleiðslu á leiknu efni sem sýnt verður í Sjónvarpinu. Samningurinn er til þriggja ára og er áætlað að á tímabilinu muni 200 - 300 milljónir króna renna til íslenskrar sjónvarpsmyndagerðar vegna hans.

„Ríkisútvarpið hefur þá sérstöðu að það selur auglýsingar. Þetta gera ríkisreknir fjölmiðlar á Norðurlöndunum, í Bretlandi og í Evrópu ekki, " segir Þorbjörn. Hann bendir á að hingað til hafi verið teknar auglýsingar frá öllum sem vildu auglýsa og tiltölulega litlar upphæðir fengist frá hverjum og einum. „Núna erum við hins vegar komin með stóraðila," segir Þorbjörn, sem telur alveg víst að þessi gjöf geri þiggjandann á einhvern hátt háðan þeim sem gefur.

Þorbjörn gerir einnig athugasemdir við að Björgólfur hafi látið þau orð fylgja með gjöfinni að ríkisfjölmiðlar væru slæmur kostur. „Í lýðræðissamfélagi eru ríkisfjölmiðlar einu óháðu fjölmiðlarnir," segir Þorbjörn sem telur að Björgólfur hefði betur átt að láta það ógert að gera þennan samning við Ríkisútvarpið.

„Ég tek það fram að ég er ekki að ætla Björgólfi neitt misjafnt varðandi þetta. En mér finnst vafasamt að skapa þessi tengsl, " segir Þorbjörn að lokum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×