Innlent

Aukin eftirspurn hækkar matvælaverð

Matvælaverð mun hækka í framtíðinni þar sem eftirspurn eftir landbúnaðarvörum mun aukast á sama tíma og vatn til framleiðslunnar verður af skornum skammti segir Martin Hawthorn yfirmaður stefnumótunar ensku bændasamtakanna.

Hawthorn var framsögumaður á morgunverðarfundi Bændasamtaka Íslands í morgun sem bar yfirskriftina: Hvað kostar maturinn á morgun? Hann fjallaði meðal annars um hækkandi heimsmarkaðsverð á landbúnaðarvörum, aukna eftirspurn frá Austurlöndum og breytt ræktunarskilyrði víða um lönd.

Í því sambandi nefndi hann að vatnsskortur væri fyrirsjáanlegur víða um heim, meðal annars í Ástralíu og meira að segja í landi eins og Bretlandi hafi tíðir þurrkar bitnað á landbúnaði. Hann sagði hækkandi heimsmarkaðsverð á búvörum komið til að vera og í því felist ýmis tækifæri fyrir bændur í okkar heimshluta.

Verð á ýmsum framleiðsluvörum bænda hefur þokast upp á undanförnum misserum og árum, fyrst og fremst á kornvörumarkaði en einnig í mjólkuriðnaðinum. Hann sagði miklar hækkanir hafa verið á maís frá Bandaríkjunum árið 2006 og nú í ár hefur hveitið fylgt á eftir ásamt umtalsverðum hækkunum á mjöli. Því sé það aðeins tímaspursmál hvenær kjötverð fer sömu leið.

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu var sammála Hawthorn. Hann sagði að eftir því sem hann vissi best hefði eitthvað af þessum verðhækkunum á heimsmarkaði þegar komið fram hér heima en að hve miklu leyti vissi hann ekki. Sagði hann enn fremur að sér sýndist allt benda til þess að verð á matvælum myndi hækka áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×