Innlent

Forseti Filippseyja ánægður með áhuga Íslendinga í jarðhitamálum

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Gloria Arrayo, forseti Filippseyja, á fundinum í morgun.
Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra og Gloria Arrayo, forseti Filippseyja, á fundinum í morgun.

Forseti Filippseyja, Gloria Arrayo, lýsti yfir ánægju með vilja Íslendinga til að taka þátt í uppbyggingu jarðvarmavirkjana á Filippseyjum með því leggja bæði fram fé og þekkingu.

Þetta kom fram á fundi hennar með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra í Malcanang-forsetahöllinni í Manilla í dag. Á fundinum var einnig Angelo T. Reyes, orkumálaráðherra Filippseyja, og yfirmenn filippeyska ríkisorkufyrirtækisins.

 

Fram kemur í tilkynningu frá iðnaðaráðuneytinu að miklir möguleikar séu á frekari jarðhitanýtinu á Filippseyjum og hafa filippseysk stjórnvöld ákveðið að markaðsvæða ríkisorkufyrirtæki landsins, þar á meðal jarðgufuvirkjanir, og bæði forsetinn og filippseyski orkumálaráðherran hvöttu Íslendinga til að taka þátt í því ferli.

Þá lýsti Arrayo mikilli ánægju með Jarðhitaskóla Sameinuðu Þjóðanna á Íslandi og mikilvægi hans fyrir menntun margra filippseyskra jarðhitavísindamanna. Hún og iðnaðarráðherra ræddu meðal annars möguleika á því að efla skólann, og veita ungum og efnilegum jarðvísindamönnum frá Filippseyjum, færi á lengra námi við skólann, sem leiddi til meistaragráðu eða doktorsgráðu við íslenska háskóla.

Fyrir fundinn með forsetanum átti iðnaðarráðherra fundi með orkumálaráðherra Filippseyja. Þar ræddu þeir frekara samstarf milli þjóðanna á sviði jarðhitavinnslu og ræddi Reyes ráðherra meðal annars möguleika á aðstoð Íslendinga við að byggja upp háskólanám í jarðhitafræðum á Filippseyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×