Innlent

Vel borgað hjá Lánasýslu sveitarfélaganna

Aðeins einn starfsmaður starfar hjá Lánasýslu sveitarfélaganna en lánasýslan greiðir 16 og hálfa milljón króna í laun á ári. Starfsmaðurinn er þó ekki sá eini sem þiggur laun frá fyrirtækinu.

Í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu eru hæstu meðallaun fyrirtækja tekin saman. Eins og fram hefur komið í fréttum þá greiðir Straumur Burðarás hæstu launin og er hver starfsmaður fyrirtækisins með 22,7 milljónir króna að meðaltali í laun á ári.

Athygli vekur að í öðru sæti er Lánasýsla sveitarfélanna sem greiðir rúmar 16 og hálfa milljón á ári í laun en hjá fyrirtækinu starfar aðeins einn einstaklingur.

Lánasýsla sveitarfélaganna er í eigu sveitarfélaga landsins og er Reykjavíkurborg stærsti hluthafinn. Þegar rýnt er í ársreikninga fyrirtækisins kemur í ljós að starfsmaðurinn sem er framkvæmdarstjóri fyrirtækisins er með tæpar 13 milljónir króna í árslaun eða tæpa eina komma eina milljón á mánuði.

Laun stjórnarmanna eru hins vegar inni í heildarupphæðinni og nema þau rúmum 3,6 milljónum króna á ári. Hver stjórnarmaður er því með að meðaltali um 60 þúsund krónur í laun á mánuði fyrir stjórnarsetuna.

Í samtali við fréttaastofu sagði Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdarstjóri Lánasýslunnar ekkert óeðlilegt við laun sín, ef eitthvað þá væru þau í lægri kantinum miðað við laun framkvæmdarstjóra annarra lánastofnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×