Innlent

SA: Einbeita sér að þeim launalægstu

Samtök atvinnulífsins vilja hækka laun þeirra sem ekki hafa notið launaskriðs og hafa setið eftir á meðan laun annarra hafa hækkað umfram launataxta.

Kjarasamningar á vinnumarkaðnum eru almennt lausir um áramótin. Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir ákvörðun Reykjavíkurborgar sem kynnt var í síðustu viku, um að setja átta hundruð milljónir í að leysa mannekluvanda borgarinnar, vera innan ramma þess kjarasamnings sem í gildi er og áhrifin á komandi kjarasamninga ekki ein og sér mikil. Vilhjálmur segir að í kjarasamningunum framundan sé aðalverkefnið að hækka laun þeirra sem hafa af einhverjum ástæðum setið eftir í kjaraþróuninni hvort sem að það sé vegna launaskriðs eða að taxtarnir séu of lágir. Útspil borgarinnar sé aðeins eitt af mörgum sem litið sé til.

Undirbúningur fyrir komandi samninga hefur staðið yfir um nokkurt skeið og hafa Samtök atvinnulífsins undanfarið skoðað gögn frá Hagstofu Íslands til að átta sig hver þróun launa hefur verið.

Vilhjálmur segir ljóst að laun margra hópa í samfélaginu hafa hækkað umfram launataxta á meðan aðrir hafi setið eftir. Einbeita þurfi sér að því að hækka laun þeirra. Slíka hópa megi bæði finna úti á landi og í ýmsum starfsgreinum á höfuðborgarsvæðinu. Vilhjálmur telur að ef samningsaðilum tekst að einbeita sér að þessum hópum þá eigi að vera möguleiki á að komast í gegnum kjarasamningalotuna með þokkalega skynsamlegum hætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×