Innlent

Dýrasta flugfargjaldið innanlands

Vopnfirðingar njóta þess vafasama heiðurs að fá að kaupa dýrasta flugmiðann í innanlandsflugi. Vilji þeir komast fljúgandi fram og til baka milli Vopnafjarðar og Reykjavíkur kostar miðinn 38.600 krónur, að sögn sveitarstjórans, Þorsteins Steinssonar.

Um sjöhundruð manns búa í Vopnafirði og íbúarnir þar þurfa eins og aðrir landsmenn af og til að sækja þjónustu til Reykjavíkur. En það er ekki ókeypis ef menn vilja fljúga á milli.

Flugfélag Íslands flýgur fimm sinnum í viku með millilendingu á Akureyri. Sveitarstjórinn segir að fyrir þriggja manna fjölskyldu, ef barnið hefur náð tólf ára aldri, kosti farið fram og til baka milli Vopnafjarðar og höfuðborgarinnar því yfir 100 þúsund krónur.

Stærsti draumur Vopnfirðinga er að boruð verði jarðgöng undir hinn hrikalega fjallveg Hellisheiði eystri svo þeir geti á skjótan hátt komist til Egilsstaða árið um kring. Það myndi stytta heilsárveginn um 51 kílómetra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×