Innlent

Kristján Möller undirbýr samgöngumiðstöð í Reykjavík

Samgönguráðherra er ósammála borgarstjóra um framtíð Reykjavíkurflugvallar og stefnir að því að samgöngumiðstöð verði tilbúin þar vorið 2009. Hann segir unnið að því að skapa Iceland Express aðstöðu á vellinum svo félagið geti hafið innanlandsflug þaðan þegar á næsta ári.

Framtíð flugvallarins gæti orðið eitt erfiðasta mál nýs borgarstjórnarmeirihluta, ekki síst í ljósi þess að Frjálslyndir háðu kosningabaráttu sína með því ófrávíkjanlega skilyrði að hann yrði áfram á sínum stað.

Engu að síður gaf nýr borgarstjóri flugvallarandstæðingum von um breytingu í ræðu um síðustu helgi og kvaðst þurfa eiga fund með Kristjáni Möller.

Frjálslyndi flokkurinn hefur ekki breytt um stefnu og kveðst formaður flokksins, Guðjón A. Kristjánsson, treysta því að kjörnir fulltrúar flokksins standi við gefin fyrirheit.

En skyldi Dagur eitthvað græða á því að hitta Kristján Möller?

Ráðherrann segir Dag velkominn hvenær sem er en telur að þeir séu ekki sammála í flugvallarmálinu. Undir ráðuneyti Kristjáns eru Flugstoðir að undirbúa smíði samgöngumiðstöðvar og stefna að því að hún verði opnuð í maí 2009. Ráðherrann kveðst í viðtali við Stöð 2 sammála þessari stefnumörkun og segir að það verði gott mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×