Innlent

Embætti umboðsmanns sjúklinga ekki stofnað að svo stöddu

MYND/GVA

Ekki stendur til að svo stöddu að koma á fót embætti umboðsmanns sjúklinga að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Hins vegar segist ráðherrann hafa skipað nefnd sem á að vinna að einföldun á greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu og byrjar sú nefnd á að skoða lyfjamál.

Það var Þorvaldur Ingvarsson, flokksbróðir heilbrigðisráðherra, sem spurði ráðherrann hvort til stæði að stofna embætti umboðsmanns sjúklinga. Benti hann á að borið hefði á megnri óánægju hjá bæði sjúklingum og starfsmönnum heilbrigðiskerfisins með það hversu flóknar reglur væru í heilbrigðis- og tryggingarkerfinu.

Heilbrigðisráðherra sagði málið mikilvægt enda þyrftu sjúklingar að geta leitað sér aðstoðar innan kerfisins. Sagði hann að hægt væri að nálgast málið á ýmsa vegu án þess að stofna nýtt embætti. Hann hefði áður lýst því yfir að hann ætlaði að beita sér fyrir einföldun á reglum sem snúa að sjúklingum. Til þess hefði verið sett á fót nefnd. Þá sagði að sjúklingar þyrftu að koma betur að ákvörðunum sem teknar væru innan heilbrigðiskerfisins.

Guðlaugur benti enn fremur á að faglegar kvartanir í heilbrigðismálum ætti að senda til Landlæknis sem fjallaði um þær. Því stæði ekki til að svo stöddu að stofna sérstakt embætti umboðsmanns sjúklinga.

Álfheiður Ingadóttir, þingkona Vinstri - grænna, kvaddi sér hljóðs og velti upp þeirri hugmynd hvort styrkja ætti embætti Landlæknis á þann hátt að gera það að sjálfstæðri stofnun sem heyrði undir Alþingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×