Innlent

Fundað með Dönum þann 5. nóv. um varnarmál

MYND/Pjetur

Til stendur að funda með dönskum yfirvöldum þann 5. nóvember vegna þess rammasamkomulags og yfirlýsingar sem Ísland og Danmörk hafa gert vegna samstarfs á sviði öryggis- og varnarmála og viðbúnaðar.

Þetta kom fram í máli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra í fyrirspurnartíma í dag. Siv Friðleifsdóttir úr Framsóknarflokknum spurði ráðherrra hvort hafin væri samvinna við Norðmenn og Dani á grundvelli rammasamkomulags við þjóðirnar sem gerður var í apríl síðastliðnum. Svaraði utanríkisráðherra því játandi. Enn fremur sagði Ingibjörg Sólrún að fundað hefði verið með Norðmönnum þann 1. október og að hún hefði þegar sent utanríkismálanefnd minnisblað vegna þess fundar.

Ráðherra var einnig spurður um afstöðu hans til hugmynda Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um formlegt samstarf milli landhelgisgæslustofnana á Norðurhöfum og benti Siv á að ekki heyrðu allar slíkar stofnanir undir borgaraleg yfirvöld.

Ingibjörg Sólrún sagði að það væri í sjálfu sér gott að eiga samstarf við strandgæslustofnanir annarra ríkja í Norðurhöfum, sérstaklega í ljósi þess að skipaumferð myndi aukast þar á næstu árum. Mikilvægt væri meðal annars að hafa samráð um björgunaraðgerðir ef til slysa kæmi á Norður-Atlantshafi. Skoða þyrfti hvernig samvinna hinnar borgaralegu íslensku Landhelgisgæslu yrði við strandgæslustofnanir annarra ríkja sem heyrðu undir hernaðaryfirvöld en ráðherra ítrekaði að málið væri enn á hugmyndastigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×