Innlent

Þórólfur skal fá kaupréttarsamning hjá Icelandic Group

MYND/Rósa

Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurðaði í dag að Icelandic Group væri skylt að gera kaupréttarsamning við Þórólf Árnason, fyrrverandi forstjóra fyrirtækisins, um hlutabréf í félaginu sem endurspeglaði sambærilega samninga hjá forstjórum stærri fyrirtækja á Íslandi.

Þórólfur, sem var áður borgarstjóri, réð sig til Icelandic Group í lok maí 2005. Fram kom í ráðningarsamningi hans að gera skyldi við hann kaupréttarsamning eigi síðar en 30 dögum frá undirritun ráðningarsamningsins. Samningurinn ætti að endurspegla sambærilega samninga hjá forstjórum stærri fyrirtækja á Íslandi. Þórólfi var hins vegar sagt upp störfum í október sama árs og hafði þá ekki verið gengið frá kaupréttarsamningi. Höfðaði Þórólfur því mál og vildi að Icelandic efndi samninginn.

Icelandic byggði sýknukröfu sína á því að forsendur kaupréttarsamnings væru brostnar þar sem Þórólfur væri hættur hjá félaginu. Á það féllst dómurinn ekki og heldur ekki þau rök Icelandic að um óskuldbindandi yfirlýsingu hefði verið að ræða eins og haldið hefði verið fram í málflutningi forsvarsmanna Icelandic fyrir dómi.

Taldi dómurinn að Icelandic hefði átt að hafa frumkvæði að því að gera kaupréttarsamninginn sem hafi verið hluti af launum Þórólfs. Því hefði Þórólfur ekki fyrirgert kauprétti sínum þótt ekki hefði verið gengið frá samning þar um innan 30 daga eins og fram kom í ráðningarsamningi. Því bæri félaginu að gera kaupréttarsamning við Þórólf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×