Innlent

Reyndu að flýja Fáskrúðsfjörð

Andri Ólafsson skrifar
Samkvæmt heimildum Vísis reyndu þeir Guðbjarni Traustason og Alvar Óskarsson, sem nú sitja í gæsluvarðhaldi vegna Fáskrúðsfjarðarmálsins, að flýja frá Fáskrúðsfirði þegar þeir urðu varir við að þeim var veitt eftirför.

Eftir að Guðbjarni og Alvar lögðu dópskútunni sem þeir sigldu hingað til lands frá Færeyjum, og þar áður Noregi, að bryggju, fóru þeir beinustu leið í frystihús bæjarins og fengu þar að hringja.

Einhvern tímann á því tímabili urðu þeir varir við lögreglu. Þeir snéru því hið snarasta aftur í skútu sína, leystu landfestar og gerðu sig klára til að sigla á brott. Lögreglan náði hins vegar að koma í veg fyrir að þeim yrði kápa úr því klæðinu

Á sama tíma var maður handtekinn á hafnarbakkanum sem talið er að hafi komið þangað á bílaleigubíl til að taka á móti þeim Guðbjarna og Alvari

Allir mennirnir þrír, og tveir til viðbótar á höfuðborgarsvæðinu, hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins en tæplega 60 kíló af amfetamíni og e-pilludufti fundust um borð í skútunni sem Guðbjarni, sem er sjómaður úr Sandgerði, og Alvar sigldu til landsins.

Tveir kærðu úrskurðinn, þeir Bjarni Hrafnkelsson og Einar Jökull Einarsson, sem handteknir voru á höfuðborgarsvæðinu. Hæstiréttur staðfesti hinsvegar úrskurðinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×