Innlent

Lugovoj býður sig fram fyrir öfgaþjóðernisflokk Zhírónovskys

Andrej Lugovoj sleppur við ákæru ef hann kemst á rússneska þingið.
Andrej Lugovoj sleppur við ákæru ef hann kemst á rússneska þingið. MYND/AP

Andrej Lugovoj, fyrrverandi njósnari hjá KGB, staðfesti í dag hann hygðist bjóða sig fram fyrir Frjálslynda demókrataflokkinn í Rússlandi, flokk öfgaþjóðernissinnans Vladímírs Zhírínovskys, í þingkosningum í landinu þann 2. desember.

„Ég mun taka þátt í þingi Frjálslynda demókrataflokksins á morgun og bjóða mig fram fyrir flokkinn í þingkosningum," sagði Lugovoj í samtali við Reuters í dag. Hann hafði hingað til neitað að tjá sig um fréttir þessa efnis.

Bresk stjórnvöld hafa farið fram á það að Lugovoj verði framseldur til Bretlands þar sem hann hafi staðið á bak við morðið á Alexander Litvinenko, öðrum fyrrverandi njósnara KGB, í fyrra. Eitrað var fyrir Litvinenko með geislavirku efni.

Rússar hafa hingað til neitað að framselja Lugovoj en sagst munu sækja hann til saka ef Bretar leggi fram næg sönnunargögn fyrir sekt hans. Verði Lugovoj hins vegar kjörinn á neðri deild rússneska þingsins í desember hlýtur hann friðhelgi og þá er ekki hægt að sækja hann til saka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×