Innlent

Ríkisstjórnin taki á vanda sjávarþorpanna án tafar

MYND/GVA

Kristinn H. Gunnarsson var kjörinn þingflokksformaður Frjálslynda flokksins á fundi í gær. Varaformaður er Jón Magnússon og Grétar Mar Jónsson er ritari. Á fundinum var einnig samþykkt ályktun vegna stöðunnar sem upp er komin á Flateyri.

Þar er þess krafist af nýrri ríkisstjórn að hún láti vanda sjávarþorpanna til sín taka án tafar. Segja frjálslyndir enn fremur að núverandi staða Flateyrar, sem og annarra sjávarbyggða á landinu, sé lýsandi dæmi þess að almannahagsmunum sé vikið til hliðar fyrir sérhagsmuni útvalinna og auðsöfnun þeirra. Alþingi verði þegar í stað að endurreisa atvinnufrelsi í sjávarútvegi með því að gera nauðsynlegar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða.

Allt tal um skoðun, athugun eða óvænta atburðarás sé orðagjálfur manna sem þori ekki að takast á við sérhagsmunina sem stjórnvöld eigi að stjórna en ekki þjóna. „Veiðiheimildir eiga að vera til staðar til þess að nýta áfram fiskimiðin nærri sjávarþorpunum. Frjálslyndi flokkurinn vill ráðstafa sérstaklega veiðiheimildum til byggðarlaga, sem búið hafa undanfarin ár við neikvæðan hagvöxt og tryggja með því atvinnu og byggð," segir enn fremur í ályktun þingflokks Frjálslynda flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×