Innlent

Um helmingur landsmanna hefur greitt atkvæði

Um helmingur landsmanna hafði kosið í Alþingiskosningunum klukkan sex í dag. Kjörsókn er svipuð og í síðustu kosningum víðast hvar. Í Reykjavík er kjörsóknin þó ívið minni en 2003 en til þess þarf að taka að þá var kjörsóknin óvenjugóð.

Í Reykjavík norður höfðu 51,7 prósent kosið klukkan sex, miðað við 59,32 prósent í síðustu kosningum. Í Reykjavík suður höfðu 56,12 prósent kosið en árið 2003 höfðu 60,89 prósent kosið á sama tíma.

Í Norðausturkjördæmi höfðu 52 prósent kosið á Akuryeyri klukkan hálf sex, og er það 5,5 prósenta aukning frá því í síðustu kosningum. Svipaða sögu er að segja frá Egilsstöðum. Í Grímsey höfðu 71 prósent kjósenda kosið og má segja að þar sé allt komið í hús því búist er við því að restin komi í utankjörstaðaratkvæðum.

Klukkan sex voru 57 prósent atkvæða í Norðvesturkjördæmi komin í hús, rúmlega tveimur prósentum minna en í kosningunum 2003. Á Patreksfirði kom upp ágreiningur um hvort leyfa ætti fulltrúa flokka í kjördeildum, en úr þeim ágreiningi hefur verið leyst.

Klukkan fimm höfðu 47,8 prósent atkvæðisbærra manna kosið í Suðvesturkjördæmi en árið 2003 höfðu 52,4 prósent skilað sér á kjörstað á sama tíma.

Í Suðurkjördæmi voru 56,9 prósent atkvæðisbærra manna búnir að kjósa, sem er nákvæmlega sama tala og var á sama tíma árin 2003 og 1999.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×