Innlent

Guðjón Arnar ekki sáttur

Guðjón A Kristjánsson formaður Frjálslynda flokksins er ekki ánægður með útkomu flokksins í könnun Fréttablaðsins í dag, þar sem flokkurinn mælist með 4,4 prósent og kemur ekki manni á þing. Þegar flokkurinn mældist hvað hæst í könnunum fór hann vel yfir tíu prósent, en á þeim tíma stóð yfir hávær umræða um innflytjendamál að frumkvæði forystumanna flokksins.

Guðjón segir að frjálslyndir þurfi ekki að lyfta þeim málum neitt hærra en orðið er. Flokkurinn muni halda áfram að ræða þessi mál enda sé það nauðsynlegt. Inflytjendamál horfi öðruvísi við á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, þar sem ástandið snúist fyrirst og fremst um undirboð á launamarkaði. Á landsbyggðinni hafi inflytjendur aðlagast samfélaginu mun betur og margir hverjir orðnir góðir og gildir íslenskir ríkisborgarar.

Íslandshreyfingin virðist vera að taka töluvert fylgi af frjálslyndum, en Margrét Sverrisdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri Frjálslyndaflokksins, leiðir nú lista Íslandshreyfingarinnar í öðru Reykjavíkur kjördæmanna. Guðjón óttast ekki að brotthvarf Margrétar og annarra flokksmanna með henni, muni taka meira fylgi en orðið er frá frjálslyndum. Margir hafi gengið til liðs við frjálslynda að undanförnu. Hann telur að Íslandshreyfingin muni helst taka fylgi af Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki þegar líður á kosningabaráttuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×