Fótbolti

Veron aftur í argentínska landsliðið

Juan Sebastian Veron spilaði 49 leiki með Inter á árunum 2004-06 þar sem hann var sem lánsmaður frá Chelsea.
Juan Sebastian Veron spilaði 49 leiki með Inter á árunum 2004-06 þar sem hann var sem lánsmaður frá Chelsea. NordicPhotos/GettyImages

Miðjumaðurinn Juan Sebastian Veron hefur verið kallaður aftur inn í landslið Argentínu í fyrsta skipti síðan árið 2003. Veron fer fyrir sérstöku liði sem fer í æfingabúðir í Argentínu í vikunni en það er aðeins skipað leikmönnum sem spila í heimalandinu.

Veron var á sínum tíma lykilmaður í argentínska landsliðinu en var settur út í kuldann eftir HM 2002 þar sem liðið féll út úr keppninni með skömm. Þar var ábyrgðin að miklu hengd á Veron, sem gerði garðinn frægan með liðum eins og Sampdoria, Parma, Lazio og Manchester United. Veron er 31 árs gamall og spilar nú með liði Estudiantes í heimalandinu við góðan orðstír.

"Það var frábært að fá tækifæri til að æfa með Argentínu á ný og þetta var nánast eins og þegar ég kom fyrst inn í landsliðið á sínum tíma. Það var auðvitað erfitt að vera settur út úr landsliðinu, en í fótboltanum verður maður að taka því góða með því slæma," sagði Veron.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×