Innlent

Sautján ára piltur á 212 km hraða

Sautján ára piltur með eins mánaðar gamalt ökuskírteini og einn 16 ára farþega var stöðvaður á Reykjanesbraut, nálægt Reykjanesbæ upp úr miðnætti í nótt, eftir að hafa mælst á 212 kílómetra hraða.

Hann var umsvifalaust sviftur ökuréttindum. Fyrst mældist hann á 130 kílómetra hraða á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, þar sem hann sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og jók hraðann til muna.

Eftir skamma eftirför ákváðu lögreglumenn að halda í humátt á eftir honum en láta lögregluna í Keflavík koma á móti honum, sem sendi þrjá bíla af stað.

Eftir að hafa hundsað stöðvunarmerki þess fyrsta nam hann loks staðar þegar hann sá tvo lögreglubíla til viðbótar koma á móti sér og tvo á eftir. Þetta er einhver mesti hraði sem mælst hefur á bíl hér á landi til þessa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×