Innlent

Slysum á gangandi vegfarendum fækkar verulega

MYND/GVA

Slysum með alvarlegum meiðslum og banaslysum gangandi vegfarenda hefur fækkað verulega í Reykjavík á síðustu áratugum eftir því sem fram kemur í nýrri skýrslu Línuhönnunar sem unnin var fyrir framkvæmdasvið borgarinnar.

Fram kemur í skýrslunni að slys gangandi vegfarenda í Reykjavík hafi verið 92 árið 1975 en þau voru 46, eða helmingi færri, í fyrra. Þá sýnir skýrslan að hlutfall þeirra sem meiddust mikið hafi farið úr 54 prósentum árið 1975 í 20 prósent í fyrra. Á sama tíma hefur hlutfall þeirra sem meiðast lítillega í slysum gangandi vegfaranda farið úr 40 prósentum í 78.

Fram kemur á vef framkvæmdasviðs að bættan árangur megi rekja til útbóta á gatnakerfinu, meðal annars að með því að aðskilja akandi og gangandi umferð þar sem ökuhraðinn er mestur og fækka þverunarstöðum gangandi vegfarenda annars staðar. Aðgerðir innan hverfa miða hins vegar einkum að því að halda ökuhraða niðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×