Innlent

Stórslasaðist við að setja upp jólaseríur

Þúsundir Íslendinga eru þessa dagana að setja upp jólaseríur á húsum sínum. Slíkt getur verið varasamt eins og Snorri Einarsson þrítugur Hornfirðingur komst að í gær þegar hann féll hátt í fjóra metra niður úr stiga við slíka iðju.

Foreldrar Snorra búa á Hólabrautinni á Höfn í Hornafirði og á hverju ári aðstoðar hann þau við að setja upp jólaseríurnar. Árið í ár er engin undantekning en í gær klifraði hann upp á þak hússins til að setja seríurnar upp. Þegar Snorri var að fara aftur niður stigann rann stiginn undan honum og hann féll hátt í fjóra metra til jarðar. Snorri lenti á andlitinu á steyptum pallinum og slasaðist hann nokkuð en sprungur mynduðust bæði í hryggjalið og hálslið.

Snorri var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gær en hann telur að snör viðbrögð hafi skipt sköpum. Snorri verður líklega útskrifaður á næstu dögum og hlakkar til að komast heim og halda jólin hátíðleg með fjölskyldunni. Hann ætlar ekki að láta slysið koma í veg fyrir að hann setji seríurnar aftur upp á næsta ári. Snorri vill brýna fyrir þeim sem eru að setja upp jólaseríur þessa dagana að fara gætilega.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×