Enski boltinn

Allardyce nýtur stuðnings Ferguson

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alex Ferguson, stjóri Manchester United.
Alex Ferguson, stjóri Manchester United. Nordic Photos / Getty Images

Sir Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að það myndi koma honum mjög á óvart ef Sam Allardyce yrði rekinn frá Newcastle.

Newcastle er í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar en tap liðsins fyrir Wigan á öðrum degi jóla hefur orðið til þess framtíð Allardyce er í hættu. Því hefur verið haldið fram að hann fái þrjá leiki í viðbót til að sanna sig í starfi.

„Það kæmi mér mjög á óvart ef hann yrði rekinn," sagði Ferguson. „Af þeim sem hafa gegnt þessu starfi á undanförnum árum er hann einna líklegastur til að ná góðum árangri. Hann þarf meiri tíma."

Newcastle mætir Chelsea á útivelli í dag og mun ósigur þýða að enn meiri pressa verður á Allardyce.

Ferguson segir að stuðningsmenn Newcastle hafi óraunhæfar væntingar til félagsins og að það sé að miklu leyti til vegna 5-0 sigurs Newcastle á Manchester United árið 1996.

„Mér sýnist sem svo að um leið og Newcastle tapar leik er starf stjórans í hættu," sagði Ferguson. „Það versta sem gat komið fyrir Newcastle var þegar þeir unnu okkur 5-0. Þeir virðast halda að liðið eigi að vinna hvern einasta leik 5-0."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×