Innlent

Fjöldi sakamála óleyst

Fjöldi alvarlegra sakamála sem komu upp á árinu eru enn óleyst eða hafa ekki enn verið send saksóknara til meðferðar. Þeirra á meðal eru gróf nauðgunarmál í Reykjavík og á Selfossi.

Í lok síðasta árs og í byrjun þessa kærðu átta konur Guðmund Jónsson, fyrrverandi forstöðumann Byrgisins, fyrir kynferðislega misbeitingu. Á sama tíma hóf efnahagsbrotadeild lögreglunnar rannsókn á meintu fjármálamisferli hans en í fréttaskýringaþættinum Kompási sem sýndur var skömmu áður var Guðmundur sakaður um að draga að sér styrktarfé. Þá var hann einnig sakaður um misnota sér traust kvenna sem leituðu sér meðferðar í Byrginu. Enn hefur engin ákæra verið gefin út á hendur Guðmundi.

Í apríl á þessu ári var framkvæmdarstjóra verðbréfasjóðs sparisjóðanna vikið úr starfi og hann kærður fyrir bókhaldssvik með útgáfu um 13 milljarða ábyrgðar. Málið er enn í rannsókn.

Í júlílok var maður myrtur á Sæbraut. Banamaðurinn hafði keypt skotvopnið í verslun í Reykjavík án þess að hafa til þess tilskilin leyfi en hann svipti sig lífi eftir voðaverkið. Lögreglan hefur lítið annað vilja segja um ástæðu þess að maðurinn gat keypt skotvopnið í nafni annars manns, annað en að ákvörðun um hvort eitthvað verði gert til að slíkt hendi ekki aftur verði tekin síðar. Að því er fréttastofa kemst næst liggur sú ákvörðun ekki fyrir.

Þá var karlmanni ráðinn bani við Hringbraut í byrjun september. Sá sem grunaður er um verknaðinn situr í gæsluvarðhaldi en rannsókn málsins ólokið.

Í október voru þrír menn handteknir grunaðir um að hafa nauðgað konu í heimahúsi á Selfossi. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Í nóvember voru tveir menn úrskurðaðir í gæsluvarðhald grunaðir um að hafa nauðgað konu í húsasundi við Laugarveg. Ákæru í málinu er ekki að vænta fyrr en í janúarlok.

Þá er einn maður í farbanni grunaður um að hafa í lok nóvember ekið á fjögurra ára gamlan dreng með þeim afleiðingum að hann lést. Málið hefur enn ekki verið sent til saksóknara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×