Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað að Dalsmára í Kópavogi um sexleytið vegna þess að vatn lak úr læk í nágrenninu og inn í hús.
Fjórir slökkviliðsmenn voru sendir á staðinn og er búið að stöðva lekann. Unnið er að því að hreinsa íbúðina en að sögn slökkviliðsins urðu talsverðar skemmdir á henni. Þá var slökkviliðið kallað að íbúð í Breiðholti fyrr í dag vegna minni háttar vatnsleka.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur einnig átt erilsaman dag vegna óveðursins. Lögreglumenn voru kallaðir að íbúð í Kópavogi þar sem gervihnattardiskur losnaði og í Hafnarfirði losnuðu þakplötur.
Að sögn Sigurðar Ragnarssonar, veðurfræðings á fréttastofu Stöðvar 2, er mesta óveðrið nú gengið yfir vestanvert landið.
