Innlent

Bilanir á flutningskerfi höfðu áhrif á alla stóriðju á suðvesturhirnin

MYND/Vilhelm

Bilun sem varð á svokallaðri Brennimelslínu í Hvalfirði í nótt vegna illviðris hafði áhrif á alla stjóriðju á suðvesturhorninu og þá varð einnig truflun á starfsemi Fjarðaáls í Reyðarfirði í skamman tíma vegna bilunar á byggðalínu.

Fram kom í tilkynningu Landsnets í morgun að alvarleg bilun á Brennimelslínu hefði orðið þegar stálgrindarmastur í Hvalfirði gaf sig undan veðurhamnum. Við það fóru út skáli 2 hjá Norðuráli á Grundartanga, álag í skála 3 hjá Alcan í Straumsvík og allt álag hjá Járnblendiverskmiðjunni á Grundartanga. Þar að auki fóru allar vélar Hellisheiðarvirkjunar úr rekstri vegna bilunarinnar.

Að sögn Nils Gústavssonar, deildarstjóra kerfisstjórnunar hjá Landsneti, eru álverin tvö viðkvæm fyrir truflunum á stofnlínum, sérstaklega í áðurnefndum skálum. „Þegar svona skammhlaup verður þurfa þau að minnka álagið og það hefur áhrif á rekstur veranna," segir Nils.

Viðgerðarmenn á vegum Landsnets vinna enn að því að laga Brennimelslínu og segir Nils að allur kraftur sé lagður í að koma henni í rekstur fyrir fyrramálið. „Það er aftur spáð vondu veðri þá og það eru ákveðnar líkur á truflunum af þeim sökum og við viljum því hafa kerfið sem sterkast," segir Nils.

Bilanir og rekstrartruflanir hafa ekki haft áhrif á almenna notendur á suðvesturhorninu en á Vestfjörðum er keyrt á díselvélum þar sem svokölluð Geirdalslína 1 í Saurbæ bilaði í nótt þegar tvær tréstæður brotnuðu. Vestfirðir eru því ekki tengdir meginflutningskerfi landsins á meðan á viðgerð á línunni stendur.

Aðspuður hvernig flutningskerfið geti staðið af sér ítrekað illviðri eins og undanfarna daga og næstu daga segir Nils að það fari allt eftir vindátt og hvernig hviður komi á línur. Mjög slæmt veður hafi verið mánudag án þess að nokkur truflun hafi orðið á flutningskerfi raforkunnar. Því sé erfitt að spá fyrir um hvernig kerfið bregðist við hverju sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×