Innlent

Óvíst hvort ráðuneytið mismuni kynjunum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, segir ekkert hægt að fullyrða um launamun út frá könnuninni.
Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, segir ekkert hægt að fullyrða um launamun út frá könnuninni.
„Kjarakönnun Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins gefur ekkert tilefni til fullyrðinga um launamun karla og kvenna sem vinna í félagsmálaráðuneytinu," segir Hrannar B. Arnarsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra.

Greint var frá því í fréttum í gær að könnunin benti til þess að félagsmálaráðuneytið greiddi konum lægri laun en körlum. Hrannar bendir á að þátttakendur í könnuninni hafi verið of fáir til þess að hægt sé að greina kynbundin launamun út frá henni. „Ráðherra vinnur hörðum höndum að því að vinna bug á launamisrétti hvar sem það fyrirfinnst," segir Hrannar.

Ólafur Grétar Kristjánsson, formaður Félags háskólamenntaðra starfsmanna stjórnarráðsins tekur undir með Hrannari. „Ég hafði verið að vonast eftir því að 80% myndu svara könnuninni en einungis 63% svöruðu þegar uppi var staðið. Þar af voru aðeins 50% á meðal starfsmanna félagsmálaráðuneytisins," segir Ólafur. Ólafur segist ekki hafa neina ástæðu til að draga í efa að félagsmálaráðherra hafi áhuga á því að útrýma launamun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×