Innlent

Áfram viðbúnaður vegna óveðurs

Óveðrið, sem gekk yfir um liðna nótt, olli töluverðum skemmdum. Meðal annars á þaki Austurbæjarskóla.
Óveðrið, sem gekk yfir um liðna nótt, olli töluverðum skemmdum. Meðal annars á þaki Austurbæjarskóla.

Veðurstofa Íslands varar er við stomi víða um land seint í kvöld og á morgun. Gert er ráð fyrir að áhrifa stormsins fari að gæta upp úr miðnætti og þeirra muni verða vart á landinu fram á seinnihluta morgundagsins. Lægðin sem er að koma upp að landinu mun vera dýpri og víðáttumeir en sú sem gekk yfir um liðna nótt. Þessi lægð mun þó líklega fara vestar þannig að búast má við sambærilegu veðri og var í nótt en það mun taka lengri tíma að fara yfir.

Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð verður mönnuð á meðan stormurinn fer yfir landið og verður í nánu sambandi við Veðurstofuna um framvindu. Í Samhæfingarstöðinni verða fulltrúar Almannavarnadeildar og fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, Landsstjórnar björgunarsveita, Lögreglu höfuðborgarsvæðisins, Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins og svæðisstjórnar björgunarsveita á höfuðborgarsvæðinu.

Gríðarlegur erill var hjá viðbragðsaðilum síðustu nótt vegna veðurs og voru nokkur dæmi um að ekki tækist að sinna öllum verkefnum sem upp komu vegna anna. Þegar svo er má búast við að forgangsraða þurfi verkefnum. Fólk er kvatt til þess að fylgjast með veðurspá og gera ráðstafanir vegna muna sem gætu farið af stað í veðrinu.

Farþegar sem hyggjast ferðast með flugi eru hvattir til þess að fylgjast með vefsíðum sem birta komu- og brottfarartíma eða á textavarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×