Innlent

Rafvirkjalaust á Landspítala innan skamms

Sextán rafvirkjar af átján sem vinna á Landspítalanum hafa sagt upp störfum, sumir hverjir eftir áratuga langt starf, vegna óánægju með launakjör. Það verður því rafvirkjalaust á spítalanum innan skamms þar sem hinir tveir sem ekki sögðu upp fara á eftirlaun fljótlega.

Rafvirkjarnir sextán sögðu upp um síðustu mánaðarmót eftir að niðurstöður launakönnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Rafiðnaðarsambandið í ágúst var birt. Að sögn Páls Brynjar Arasonar, trúnaðarmanns rafvirkjanna, kom þar í ljós að laun rafvirkja við Landspítalannn hefðu ekki fylgt launaþróun og var því farið fram á leiðréttingu. Þegar ekki var orðið við því hafi rafvirkjarnir ákveðið að segja upp. Páll segist ekki bjartsýnn á að málin verði leyst og því séu menn farnir að leita sér að vinnu annars staðar.

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 í morgun að mikil óánægja hafi sprottið meðal rafvirkjanna eftir fund með rekstrarstjóra spítalans og viðbrögð hans þótt einkennileg.

Guðmundur segir flesta rafvirkjana hafa unnið á spítalanum í áratugi og ljóst sé að mikið hafi þurft til að menn segðu upp störfum. Hann segir Rafiðnaðarsambandið ekki koma að aðgerðum rafvirkjana en vissulega sé það áhyggjuefni að svona skuli fara. Hins vegar sé mikil eftirspurn eftir rafvirkjum á almennum markaði því sé óljóst hvernig Landspítalinn hyggst leysa þann vanda sem skapast á spítalanum þegar menn láta af störfum þann 1. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×