Innlent

Íslendingur vann við hugbúnaðinn fyrir vélmennið á Mars

Ari Kristinn Jónsson forseti tölvunarfræðideildar Háskólans í Reykjavík vann að gerð tölvuhugbúnaðarins sem notaður er til að stjórna athöfnum vélmennis NASA á Mars.

Vélmennið ber nafnið Spirit og það var sent til Mars fyrir tæplega fjórum árum síðan. Upphaflega var talið að vélmennið myndi duga á Mars í þrjá til sex mánuði en það er enn að nú nær fjórum árum síðar. "Ég held að það verði að teljast allgóður árangur," segir Ari Kristinn í samtali við Vísi.

"Spirit sendir gögn og upplýsingar á hverjum degi frá Mars og það sem við gerðum var að hanna tölvubúnaðinn sem stjórnar því sem vélmennið gerir á næsta degi," segir Ari Kristinn en hann vann í nær áratug hjá NASA.

"Í hugbúnaði þessum er gerfigreind til staðar en hugbúnaðurinn aðstoðar vísindamenn við að gera áætlun fyrir störf Spirit á hverjum degi," segir Ari Kristinn og bætir því við að það hafi verið spennandi að fá tækifæri til að vinna að þessu verkefni.

Eins og kemur fram í annarri frétt á Vísi, í Tækni og vísinda dálki okkar hefur Spirit aflað mikilvægra upplýsinga sem sýna að örverur hefðu vel getað þrifist á Mars í fortíðinni.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×