Innlent

Líður sem hústökumanni í eigin íbúð

Íbúar við Skúlagötu 32 í Reykjavík eru ósáttir við fyrirhugaða framkvæmdir á hinum svokallaða Barónsreit. Þeir fréttu fyrst fyrir nokkrum dögum að reisa ætti verslunarmiðstöð þar sem íbúðir þeirra standa í dag.

Áform Samson Properties um uppbyggingu á Barónsreitnum voru kynnt í síðustu viku. Samkvæmt þeim vilja Samson-menn byggja um 25 þúsunda fermetra verslunarmiðstöð á svæðinu. Ennfremur er gert ráð fyrir íbúðum, skrifstofum og veitingahúsum svo fátt eitt sé nefnt. Fyrirtækið hefur nú þegar keypt fjölda húsa við reitinn.

Kristófer már Kristinsson, íbúi við Skúlagötu segist fyrst hafa frétt af málinu í fjölmiðlum en miðað við núverandi hugmyndir kemur verslunarmiðstöð þar sem íbúð hans stendur nú.

Kristófer gagnrýnir fyrirtækið fyrir að hafa ekki sett sig samband við íbúa á svæðinu áður en farið var með áformin í fjölmiðla. Hann segir óþægilegt að búa við umræðu af þessu tagi og segist líða helst sem hústökumanni í eigin íbúð.

Þá segist Kristófer nú þegar hafa fengið kauptilboð í íbúðina. Hann segist þó vera sáttur þar sem hann er og ekki á þeim buxunum að flytja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×