Innlent

Björgunarsveitamenn hafa unnið tíu þúsund vinnustundir vegna óveðurs

Björgunarsveitamenn standa í ströngu þessa dagana.
Björgunarsveitamenn standa í ströngu þessa dagana.

Sjálfboðaliðar Slysavarnarfélagsins Landsbjargar hafa alls varið 10 þúsund klukkustundum við að aðstoða fólk í óveðri sem geysað hefur undanfarna daga. Þetta sagði Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Landsbjargar í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Kristinn segir að í kringum 300 björgunarsveitarmenn hafi verið að störfum undanfarinn sólarhring en þá séu ótaldar vinnustundir lögreglumanna og slökkviliðsmanna. „Sem betur fer hafa þessar aðgerðir gengið mjög vel," segir hann.

Kristinn segir að það hafi komið björgunarsveitarmönnum á óvart hversu mikið af lausamunum fjúki í óveðrinu. Um sé að ræða garðhúsgögn og heita potta en einnig losni þakplötur og gluggar í gömlum húsum. En Kristinn bendir á að sem betur fer hafi enginn slasast í óveðrinu.

Kristinn segir að þessa dagana vinni fjölmargir að því að skipuleggja flugeldasölu slysavarnarfélaganna og hjálparstörfin vegna óveðursins taki heilmikinn tíma frá þeim undirbúningi. Hann segir að nú þurfi fólk einfaldlega að vinna lengri vinnudag. „En þetta er hörkulið sem er í björgunarsveitunum og ég hef enga trú á öðru en að við verðum klár með flugeldana milli jóla og nýárs," segir Kristinn.

Kristinn segir að vinnuveitendur sýni starfsmönnum sínum sem taki þátt í starfi björgunarsveitanna mikinn skilning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×