Innlent

Færðu Mæðrastyrkstnefnd ellefu hundruð þúsund krónur

Frá afhendingu styrksins.
Frá afhendingu styrksins.

Sex verkalýðsfélög í Eyjafirði afhentu í dag Mæðrastyrksnefnd Akureyrar ellefu hundruð þúsund króna styrk. Jóna Berta Jónsdóttir veitti styrknum viðtöku fyrir hönd Mæðrastyrksnefndarinnar.

Í ávarpi við athöfnina lýsti Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, yfir þakklæti fyrir hönd félaganna sex fyrir það mikla og góða starf sem unnið er í nefndinni. „Það er mikil gæfa að eiga að þær konur sem í Mæðrastyrksnefndinni starfa og eru tilbúnar að leggja mikla vinnu af mörkum til þess að rétta hjálparhönd þeim sem á þurfa að halda til þess að geta búið sér og sínum gleðilega jólahátíð. Það er sárt til þess að hugsa að leggja þurfi til háar upphæðir til að mæta þörfum þessara einstaklinga," sagði Björn.

Á morgun er fyrsti dagur úthlutunar hjá Mæðrastyrksnefnd sem nú er til húsa í Íþróttahöllinni. Jóna Berta sagði að að nefndin hefði átt annríkt að undanförnu því þörfin fyrir aðstoð væri mikil. „Það eru mjög margir sem vilja leggja okkur lið nú fyrir jólin, fleiri en oft áður og ég vil þakka öllum fyrir þann góða stuðning sem við höfum fengið. Við gætum ekki gert þetta ef þið og aðrir á svæðinu hefðuð ekki sýnt slíkan samhug í verki," sagði Jóna Berta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×