Innlent

Íbúð skemmdist mikið í eldi í fjölbýlishúsi við Eiðistorg

MYND/Stöð 2

Eldur kviknaði í íbúð á fjórðu hæð í stóru fjölbýlishúsi við Eiðistorg á Seltjarnarnesi í morgun og varð mikið tjón en engan sakaði.

Eldsins varð vart um klukkan tíu þegar nágranni heyrði í reykskynjara inni í íbúðinni. Við nánari athugun sá hann reyk leggja út á milli stafs og hurðar og kalaði þá á slökkvilið sem sendi dælubíl og stigabíl.

Þegar slökkviliðsmenn komu á vettvang logaði talsverður eldur í íbúðinni og voru því reykkafarar sendir inn til að leita að fólki en engin reyndist vera heima. Öðrum íbúum í húsinu var gert að loka vandlega útidyrum sínum og gluggum, þar sem reyk lagði út úr íbúðinni, en ekkki var gripið til rýmingar.

Slökkvistarf gekk vel en talsverðar skemmdir urðu af eldi, vatni og reyk. Íbúðin er óíbúðarhæf þannig að konan og börnin sem þar búa þurfa að dvelja annarsstaðar fyrst um sinn. Eldsupptök eru ókunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×