Innlent

Eigandi jólapeninganna er fundinn

MYND/365

Peningarnir sem fundust á bílastæði Kringlunnar eru komnir í leitirnar. Kona nokkur fann peningana á bílastæði verslunarmiðstöðvarinnar og hafði samband við Vísi í þeirri von að eigandinn myndi hafa samband. Það kom á daginn, ung stúlka hafði týnt peningunum sínum í Kringlunni um svipað leyti og við nánari lýsingu hennar á upphæðinni og hvar hún hafði týnt peningnum kom í ljós að hún er réttmætur eigandi þeirra. Þær hafa nú mælt sér mót og getur unga stúlkan því klárað jólainnkaupin.

Svo virðist vera sem fleiri hafi verið óheppnir í Kringlunni um helgina því Vísi bárust sex tölvupóstar fólki sem sagðist hafa týnt peningum á bílastæði Kringlunnar. Einn sagðist hafa týnt sextíu þúsund krónum í hvítu umslagi. Hann sagðist hafa leitað mikið að því og undirstrikaði að hann hefði það mjög „gott fjárhagslega" og því væri hann varla að „falsa svona." Upphæðin sem um ræddi var þó ekki í samræmi við það sem fannst á bílastæðinu, né samsetning seðlana.

Allir sem sögðust hafa týnt peningum í Kringlunni týndu mun hærri upphæð en stúlkan sem um ræðir, en um 4500 krónur var að ræða. Hinir voru mun óheppnari en upphæðirnar sem um ræddi voru frá 18 þúsund krónum og upp í hundrað þúsund. Fæstir voru hins vegar með nákvæma upphæð á hreinu.

Annar sagðist hafa orðið fyrir þeirri ólukku að týna öllum þeim peningum sem áttu að fara í jólainnkaupin. Hann sagðist vera niðurbrotinn og allslaus vegna þessa og vonaðist hann eftir því að heyra frá konunni sem fann seðlana. Upphæðin var einnig í því tilviki í engu samræmi við það sem var í umslaginu.

Þá týndi eldri kona umslagi með peningum í Kringlunni en aftur var upphæðin ekki í samræmi við peningana sem um ræddi. Svo týndi verslunarmaður í Kringlunni peningum þegar fór í bankann til þess að hafa til skiptanna. Enn og aftur var ekki um rétta upphæð að ræða. Þá sendu nokkrir augljósir grallarar tölvupósta til Vísis þar sem augljóslega var verið að gera grín. Einn hljómaði stutt og laggott: „Hún má eiga þá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×