Innlent

Samkomulag á milli Samson og LHÍ um lóð

Listaháskóli Íslands og Samson Properties hafa náð samkomulagi um að ný skólabygging Listaháskólans rísi við Laugaveg eins og stefnt var að. Samningur þessa efnis verður undirritaður í dag að viðstöddum menntamálaráðherra og borgarstjóra.

Eins og fram kom í fréttum í síðustu viku hafa Listaháskólinn og Samson átt í viðræðum um nokkra hríð um lóð á svokölluðum Frakkastígsreit og eru hugmyndir uppi um að Samson fái lóð í Vatnsmýrinni í skiptum en búið var að úthluta Listaháskólanum þeirri lóð.

Með makaskiptasamningi milli borgarinnar og Samson í lok síðustu viku var greitt fyrir þessum samningum Samson og Listaháskólans en Samson hefur uppi áform um að byggja verslunarkjarna á svokölluðum Landsbanka- og Barónsreit í miðbænum.

Hjálmar H. Ragnarsson, rektor Listháskólans, sagði í samtali við Vísi í síðustu viku, að ef samningar tækjust við Samson stæðu vonir manna til að Listaháskólinn risi í miðbænum innan þriggja til fjögurra ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×