Innlent

Blóðugi maðurinn var stunginn á Hverfisgötu

Blóðugi maðurinn sem Vísir hefur fjallað um í dag var stunginn í lærið í íbúðarhúsi við Hverfisgötu. Lögreglan leitaði mannsins um stund en hann hafði yfirgefið staðinn og gengið sem leið lá niður að Skúlagötu.

Það var um klukkan tvö í dag sem lögreglan fékk tilkynningu um að alblóðugur maður væri á gangi á Hverfisgötu.

Maðurinn gekk ofan af Hverfisgötu, niður Vitastíginn, niður á Skúlagötu og inn í verslun 11-11 þar sem hann hné niður.

Starfsmenn verslunarinnar hringdu á sjúkrabíl sem flutti manninn í skyndi á sjúkrahús. Hann hafði þá skilið eftir sig blóðuga slóð og var orðinn mjög máttfarinn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu þá var maðurinn gestur í húsi við Hverfisgötu þegar árásin átti sér stað. Mjög óljóst er hvað gerðist og er rannsókn málsins á frumstigi. Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við það og skýrsla af manninum verður tekin síðar í kvöld eða á morgun. Loka þurfti Vitastíg um tíma á meðan Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hreinsaði upp blóðblettina.

Hjá vakthafandi lækni á Slysa- og bráðadeild Landspítalans fengust þær upplýsingar nú rétt fyrir fréttir að maðurinn hefði verið útskrifaður af spítalanum á sjötta tímanum, eftir að búið var að gera að sárum hans. Hann var með nokkuð djúpan skurð á læri en ætti að jafna sig að fullu.

Lögreglan býst við að yfirheyra manninn í kvöld.

Sjá einnig:

Blóði drifin slóð í miðbænum

Blóðugi maðurinn birtist hjá ókunnugum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×