Innlent

Bæjarfulltrúar biðja hver annan að víkja

Sameinaður listi félagshyggjuflokka, Álftaneslistinn, er í meirihluta í bæjarfélaginu. Listi sjálfstæðismanna er einn í minnihluta.
Sameinaður listi félagshyggjuflokka, Álftaneslistinn, er í meirihluta í bæjarfélaginu. Listi sjálfstæðismanna er einn í minnihluta.
Bæjarfulltrúar Sjálf­stæðisfélagsins á Álftanesi vilja Sigurð Magnússon bæjarstjóra úr starfi. Hann hafi verið dæmdur í héraðsdómi fyrir vanefndir á samningum, og siðferðisspurning vakni um hvort einstaklingur með slíkan dóm á bakinu sé hæfur til að stjórna bæjarfélagi.

Dómurinn sem málið snýst um féll í Héraðsdómi Reykjaness síðastliðinn þriðjudag. Þar var Margfeldi ehf. dæmt til að greiða Hjálmtý Sigurðssyni rúma eina og hálfa milljón króna vegna vangoldinna launa. Margfeldi er í eigu Sigurðar Magnússonar bæjarstjóra.

Vantrauststillaga var lögð fram á fundi bæjarstjórnar Álftaness á fimmtudag. Á fundinum sagði Sigurður fyrirtæki sitt hafa dregist með óheppilegum hætti í deilu milli nýrra eigenda fyrir­tækis sem Margfeldi seldi, og rekstrarstjóra sem lengi hafði starfað hjá viðkomandi fyrirtæki. Deilan sé með öllu óviðkomandi málefnum Sveitarfélagsins Álfta­ness eða störfum sínum sem bæjarstjóra.

Tillagan um að bæjarstjóranum yrði veitt lausn frá störfum var felld með fjórum atkvæðum gegn þremur. Forseti bæjarstjórnar, Kristján Sveinbjörnsson, færði til bókar að bæjarfulltrúar Sjálf­stæðis­félagsins hefðu uppi ítrekaðan persónulegan og oft níðingslegan málflutning. Málið ætti ekkert erindi inn á bæjarstjórnarfund og hann bæði þá bæjarfulltrúa sem þyrftu opinberlega að níða persónulega aðra bæjarfulltrúa að draga sig í hlé frá störfum í bæjarstjórn.

„Það er ósköp leiðinlegt að starfa í svona andrúmslofti, þegar menn fara með svona bull í bæjarstjórnir,“ segir Sigurður. „Þetta er svona þegar menn hafa misst sjónar á málefnunum.“ Hann segist efast um að íbúar á Álftanesi hafi nokkurn áhuga á máli sem þessu.

Guðmundur G. Gunnarsson, odd­viti Sjálfstæðisfélagsins á Álfta­nesi, segist sem minnst vilja gera úr málinu. „Við veltum upp þessari spurningu, hvort það orkaði tvímælis að maður sem hefur fengið slíkan dóm sé hæfur til að vera framkvæmdastjóri bæjar­félags. Meirihlutinn mat það svo að þetta væri ekki áhyggjuefni og þá er málið búið.“

salvar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×