Vinnumarkaður Flugfreyjufélag Íslands á fyrsta samningafund með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins, fyrir hönd Icelandair á miðvikudaginn í næstu viku. Flugfreyjufélagið er þar með eitt fyrsta stéttarfélagið til að hefja samningalotuna í haust.
„Við erum konur og erum mjög skipulagðar," segir Sigrún Jónsdóttir, formaður Flugfreyjufélagsins en viðræður vegna Iceland Express og Flugfélags Íslands hefjast síðar. „Það er fullt af hlutum sem snúa að okkar vinnuumhverfi," segir hún um umræðuefni fyrstu funda en vill ekki gefa upp kröfurnar áður en þær verða kynntar viðsemjendum.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, átti fundi með fulltrúum helstu landssambandanna í gær til að fara yfir stöðuna og heldur sú fundaröð áfram í dag. Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, hitti Vilhjálm í gærmorgun. Hann segir að gengið hafi verið frá viðræðuáætlun og rafiðnaðarmenn hafi kynnt kröfur sínar.
„Mér finnst full ástæða til að vera þokkalega bjartsýnn með það að geta landað þessu fyrir jól en það er með kjarasamningaviðræður eins og pólitíkina, það getur verið grenjandi rigning eftir hádegi þótt það sé fallegt veður fyrir hádegi." - ghs
Flugfreyjurnar eru fyrstar
