Innlent

Sýnir kosningafundi vikulega

Kosningafundirnir í kjördæmunum sex verða allir sýndir í beinni útsendingu á miðvikudögum.
Kosningafundirnir í kjördæmunum sex verða allir sýndir í beinni útsendingu á miðvikudögum. MYND/GVA

Fréttastofa Stöðvar tvö og Ísland í dag efna til almennra borgarafunda í öllum kjördæmum og sýna í beinni útsendingu hvern miðvikudag fram að kosningum 12. maí. Fyrsti fundurinn verður í Stykkishólmi í kvöld fyrir Norðvesturkjördæmi og næstu vikur ferðast fréttastofan eftir kjördæmum réttsælis kringum landið.

„Við erum að gefa í miðað við áður,“ segir Sigmundur Ernir Rúnarsson, fréttastjóri Stöðvar tvö. „Við gerum skoðanakannanir í öllum kjördæmum sem og yfir allt landið. Við ræðum við frambjóðendur í hverju kjördæmi, tökum við spurningum úr sal og Egill Helgason verður með sérstaka greiningu á hverju kjördæmi og spáir í spilin.“

Hver þáttur verður klukkustundarlangur, nema síðasti þátturinn sem verður einn og hálfur tími að lengd en þar mætast formenn flokkanna. „Formannsfundirnir verða með öðru sniði en venjulega, við ræðum bæði við þá alla saman og hvern í sínu lagi. Þá skyggnumst við bak við tjöldin hjá öllum formönnunum í innslögum sem sýnd verða í Íslandi í dag á mánudögum.“

Kosningafundirnir hefjast allir að loknum fréttum Stöðvar tvö klukkan 18.55.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×