Innlent

Vilja koma upp pappírsvinnslu, kísilhreinsun og netþjónabúum

Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, telur að forsendur orkusölusamnings til Alcan séu brostnar.
Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar, telur að forsendur orkusölusamnings til Alcan séu brostnar.

Fyrirtæki sem hyggja á pappírsvinnslu, gagnavistun og kísilhreinsun hér á landi eru meðal tugs fyrirtækja sem Orkuveita Reykjavíkur hefur rætt við undanfarna mánuði um orkusölu.

Þetta kemur fram á vef Orkuveitunnar. Þar segir einnig að Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, telji að að forsendur orkusölusamnings til Alcan í Straumsvík séu brostnar. Hjörleifur vísar þar til þess að einsýnt sé að ekki verði af byggingu nýs álvers fyrirtækisins í Straumsvík og að Orkuveitan geti ekki ein og sér útvegað fyrirtækinu næga orku í annað álver, en eins og kunnugt er ákvað Landsvirkjun að selja ekki orku til álvera á suðvesturhorninu á næstunni.

Á vef Orkuveitunnar segir að fyrirtækið hafi síðustu mánuði rætt við tug aðila um orkusölu, þar af sjö sem hafi hug á starfsemi sem ekki krefst losunarkvóta. Á meðal þeirrar starfsemi er kísilhreinsun, pappírsgerð og gagnavistun.

Þá hafi Orkuveitan fallist á að taka þátt í fjármögnun nýs sæstrengs til landsins sem einmitt muni auðvelda netþjónabúum, sem falast hafa eftir orkukaupum hér á landi, að hasla sér völl. Nýi strengurinn mun tengja Ísland við meginland Evrópu um Jótland í Danmörku. Þá segir Orkuveitan að hinir hugsanlegu orkukaupendur hafi skoðað margvíslega staði fyrir starfsemi sína, svo sem í Ölfusi, Helguvík og næsta nágrenni Hellisheiðarvirkjunar.

Orkuveita Reykjavíkur selur nú stórnotendum um 150 megavött af orku og hefur gert samninga um afhendingu liðlega 200 megavött til viðbótar á næstu árum. Í því skyni vinnur fyrirtækið nú að uppbyggingu Hellisheiðarvirkjunar og nýjar virkjanir við Hverahlíð og í Bitru eru í umhverfismati.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×